Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

...ÖRLÍTIÐ LJÓÐ...UM FEGURÐINA...

 

Smá blogg svona rétt fyrir svefninn....

  

Við í Trönuhjallanum erum í óða önn að pakka...það fer að líða að flutningi og við erum farin að hlakka helling til...

  

Hér í húsinu hefur ríkt ró og friður...það hefur ekki bólað á ófriðarseggjunum aftur og því allir farnir að anda léttar....úff...þetta er heimur sem engan „heilbrigðan“ langar að þekkja eða upplifa...

  

En...það er margt skemmtilegt búið að drífa á daga okkar hérna þennan mánuðinn og verður sagt frá síðar....mig langaði bara að skella inn einu litlu ljóði...svona til gamans...aþþí lífið er svo fallegt...og landið okkar svo yndislegt...þrátt fyrir sukkið og viðbjóðinn sem hefur verið að saurga mannorð þess síðustu misseri...

     

 

 

FEGURÐ.

  

Er sólarlagið litum skrýðir heiðan himininn

 

og litadýrðin tekið hefur völd

 

til ótrúlegrar gleði ég í hjarta mínu finn

 

að lifa svona fagurt sumarkvöld.

  

Þótt húmið sé að leggjast yfir land og úfið haf

 

þá ljós í sálu minni logar bjart

 

með lotningu ég þakka það sem móðir jörð mér gaf

 

landið mitt með allt sitt litaskart.

  

Nú nóttin vefur örmum sínum Ísalandið blítt

 

og næturljóðin kveður ljúft og rótt

 

á morgun er við vöknum vekur sólin okkur hlýtt

 

og dagur bjartur burtu rekur nótt.

 

BH 2008.

 

 

  

MUNA:  Þú getur valið hvort þú gefst upp þegar eitthvað fer úrskeiðis,eða nýtt þér ófarirnar og breytt þeim tl hins betra.

 

Hugsanir þínar leiða þig að örlögum þínum.Ef þú hugsar alltaf það sama, lendirðu alltaf á sama staðnum. Hugsaðu á nýjan hátt og þú munt verða ný manneskja.

 

Lífið er eins og rós...og engin er rós án þyrna.

 

Eigið bjartan og fallegan dag elskurnar mínar allar og horfið björtum augum til framtíðar....

 

BLÁKALDUR VERULEIKI...SANNLEIKURINN SJÁLFUR....

        

Enn einn rigningardagurinn og frekar napurt um að lítast úti...en þá er alveg yndislegt að koma inn í hlýjuna og vita að maður þarf ekkert að fara út fyrir hússins dyr frekar en maður vill....

Og svo er kannski bara ágætt að klára þessa úrkomu bara núna...og fá þurrt og sólríkt sumarfrí í staðinn...he he....

  

Trönuhjallatöffarar bara í góðum málum núna...allt á betri leið og svo erum við náttla bara alveg um það bil að flytja héðan...það eru bara nokkrir dagar..svona eins og sirka 27 eða svo....íha...!!!

  

En vááá hvað við erum búin að upplifa margt undarlegt á síðustu dögum og vikum...

Við vissum svosem af því að það væri kona á annarri hæð með einhvers konar geðtruflanir og þunglyndi...en við urðum aldrei vör við hana...ég held ég hafi séð hana kannski einu sinni eða tvisvar á síðasta eina og hálfa ári sem ég hef búið hér....

Við vissum líka að hún misnotaði efni og lyf...en það truflaði okkur ekkert persónulega og við vorum salíróleg....

  Rétt fyrir jólin byrjaði hins vegar ballið...sem endaði svo með ósköpum eina ágæta aprílnótt....  Bróðir konunnar flutti inn til hennar og sá um að skaffa henni það sem hana „vantaði“...í formi lyfja og dóps...En honum fylgdu ansi skrautlegar skrúfur....alls konar náungar sem rápuðu hér inn og út...seljandi...kaupandi...neytandi...berjandi...bölvandi og öskrandi....dag sem dimma nátt...

Stundum var þeim hleypt inn...stundum ekki...en þeir komust alltaf inn...með góðu eða illu...

  

Íbúar hússins tóku höndum saman um að hleypa engum ókunnugum inn...hvort sem dinglað var að degi eða kvöldi...nóttu eða morgni...og það fór soldið fyrir brjóstið á sumum....

Þá var bara hamast á hurðunum...gluggunum...svölunum eða veggjunum...Bjallan hringdi um alla blokk og formælingar...öskur og hótanir svifu hér yfir vötnum...

Stundum...eftir mikil læti...var skárra að hleypa bara mannskapnum inn...taka sénsinn á að þeir myndu bara koma sér inn í tiltekna íbúð og vera til friðs...og þannig var það oftast...en ekki alveg alltaf...

Stundum var þeim kastað öfugum út aftur...af þeim sem voru fyrir í íbúðinni...greninu...og þá sást alveg blika á hnífa skal ég segja ykkur....

Löggan var farin að þekkja andlitin á okkur...íbúunum...sem hringdum óttaslegin og skjálfandi á laganna verði til að biðja um hjálp... öryggi... og vernd á erfiðum stundum...og þeir brugðust alltaf vel við...komu um hæl...og fjarlægðu þá sem verst létu....

Það versta er samt..að löggan hefur engin ráð...önnur en koma mönnum út úr húsi...sleppa þeim svo...og vona að þeir verði til friðs...allavega smástund....

  

Börnin í húsinu voru að tapa sér...sem von er...enda sumir vopnaðir hnífum sem fóru um ganginn og stigana...og eitt skiptið...eftir að löggan hafði verið kölluð til....réðust nokkrir náungar inn í íbúð einnar fjölskyldunnar og hótuðu þeim...með hnífum og bareflum....en löggan var nógu snögg á staðinn til að koma í veg fyrir líkamsmeiðingar...

Fyrir stuttu sat ég í makindum á rúminu mínu og braut saman þvott...talaði í síma og fylgdist um leið með mannaferðum um bílaplanið...svona eins og gengur og gerist á venjulegum degi...Löggan var skyndilega komin...fjórir fílefldir náungar hringdu hjá mér og var að sjálfsögðu hleypt inn...en ég hafði ekki orðið vör við nein læti að þessu sinni...ekkert svona óeðlilega mikið neitt...og það hvarflaði rétt sem snöggvast að mér að eitthvað hefði komið fyrir Elstamann...sem var...að ég hélt...nýfarinn út...

Annar íbúi hafði hins vegar heyrt torkennileg hljóð...og ekki þorað annað en hringja og láta kanna málið...

  

Stuttu síðar yfirgáfu laganna verðir þó húsið og voru einir á ferð...

Litlu seinna kom parið sem hafði hringt...út úr húsinu...á leið á fimleikasýningu dóttur sinnar...Þá létu nokkrir aðilar til skarar skríða...réðust á þau og kýldu...börðu og hrintu...hentu til og frá...öskrandi og hótandi öllu illu...Ég fraus...þetta var einum of mikill raunveruleiki...og ég mundi ekkert símanúmer...en Miðormurinn mundi það...112....!!!Elstimann var líka heima...hann hafði heyrt læti frammi og ákveðið að bíða með að fara út...og við stóðum þarna við gluggann og horfðum á þessar aðfarir...án þess að geta gert neitt...annað en kalla á aðstoð...Skyndilega stökk parið inn í bílinn sinn og hugðist flýja en þá brást einn árásarmannanna þannig við að hann stökk inn í sinn bíl og keyrði á þau...Sem betur fer kom löggan áður en flótti brast á...enda skelfilegt...í svona rólegu hverfi...börn á leið úr skóla og fólk að koma úr vinnu...allsstaðar eitthvert líf...

Það þarf svosem ekki að tíunda það að parið er farið héðan og búið að finna sér annað húsaskjól......

Við sátum hins vegar uppi með óþjóðalýðinn...sem reykti undarleg efni í stigaganginum og undir gluggunum hjá okkur...ræddi sölu og verð á ýmsum efnum...spjallaði um áhrif nýrra efna og skipulagði sölu og dreifingu...

Og þetta hlustuðu blessaðir unglingarnir mínir á....og voru mjöööög hneykslaðir á þessu öllu saman...en líka skelfilega hræddir...

  

Löggan tók skýrslu...og liðinu var sleppt...

Eftir lætin á planinu kom konan...sem er húsráðandi í téðri íbúð...út...rölti upp á planið og fór að skríða um...eins og væri hún að leita að einhverju....Hún kíkti í bíldekk og þreifaði sig áfram...rölti upp að girðingu og að þvottahúsinngangi...en virtist ekki finna það sem hún leitaði að...

Við stóðum stjörf fyrir innan gluggann og fundum óskaplega mikið til með henni...en vorum ekki alveg að skilja þessa undarlegu hegðun...sem svo endaði á að hún fór aftur inn.....og sást ekki lengi vel....

  

Ennþá héldu lætin og hamagangurinn og ennþá voru allir hengdir upp á þráð....

Ég er sú eina sem nota þvottahúsið...allir aðrir hafa vélarnar inni hjá sér...og nota ekki þurrkarana sína eða snúrurnar...en ég fór aldrei niður öðruvísi en einhver vissi af mér...eða kæmi bara hreinlega með mér....Eitt skiptið stóð maður á einum skó og berfættur við hurðina og barði og lamdi....reyndi að klifra upp hurðina og gerði ótrúlega furðulegar hundakúnstir...hlandblautur og illa girtur...öskrandi og grenjandi....og ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera...vildi ekki að hann sæi mig...en varð að fara framhjá hurðinni til að komast í íbúðina mína...sem betur fer kom Magginn niður og labbaði með mér upp...Aumingjans maðurinn þarna úti var á einhverjum ofskynjunarlyfjum greinilega...og vissi ekkert hvar hann var eða hvert hann ætlaði...

Löggan hirti hann...en þurfti að setja plast í sætin hjá sér til að geta látið hann setjast inn...

  

Fyrir stuttu keyrði svo um þverbak...daginn fyrir sumardaginn fyrsta....

  Þá nötraði allt og skalf af öskrum...formælingum...hurðaskellum og það glumdi í járni og tré....

Og svo kom „Krulli“ eins og við köllum einn þessara náunga...hlaupandi út...rauk inn í bíl...rauk svo aftur upp og kom svo stuttu seinna enn og aftur út...og ég heyrði hann grenja í símann...eitthvað um að einhver eða einhverjir ættu að koma...nefndi staðinn og íbúðina...og við sáum fram á að þarna væri einhvers konar bardagi í uppsiglingu....og hjörtun fóru heljarstökk í kroppunum áokkur...

 Svo kom löggan...eina ferðina enn...og ég stökk blátt áfram að þessum tveimur „vinum“ okkar og sagði í mikilli geðshræringu að þeir yrðu bara að vera hérna...þetta væri bara ekki hægt...íbúarnir væru alveg að tapa sér...allir að bilast úr hræðslu!!!Þeir svartklæddu sögðust nú ekki vera komnir í því erindi að vera varðmenn á staðnum...heldur hefði verið kallað í þá eftir hjálp og að sjúkrabíll væri rétt ókominn...

Ég sendi þá upp...þangað sem konugarmurinn býr...og þeir sögðu að það hefði verið hringt út af of stórum lyfjaskammti...en voru svo í vafa um hvort líkamsárás væri jafnvel líka með í dæminu...En þeir komust ekki inn til frauku...hún röflaði einhverja steypu innan úr íbúðinni og sagðist ekki geta opnað...hún lægi á gólfinu og gæti ekki hreyft sig...Sjúkraflutningamennirnir voru nú búnir að bætast í hópinn og löggan ákvað að reyna að berja upp hurðina...en ég sýndi þeim svalainngönguna og einn þeirra kleif inn og gat þannig opnað fyrir aðstoðinni...

Daman hafði sem sagt óverdúsað...vildi ekki lifa lengur og var búin að fá nóg af lífinu...skelfilega sorglegur veruleiki sem nísti mann inn að hjartarótum....Það var dælt upp úr henni...án hennar vilja...en samt var hún nokkuð brött þegar hún fór í sjúkrabílinn...og daðraði pínu við einn sjúkraflutningamanninn..

Við vorum alveg í mínus eftir þessa reynslu og fengum húsnæðisfulltrúa bæjarins...sem á íbúð konunnar...til að koma og hann varð vitni að þessu öllu saman...

  

Við bjuggumst við meiri látum...en sem betur fer var allt hljótt það sem eftir lifði nætur...

  

Frökenin kom svo galvösk aftur heim og liðið mætti...eflaust til að fagna lífinu með henni...og sigrinum yfir því...

Um ellefu kvöldið eftir dinglaði hún og bað okkur um að kalla í sjúkrabíl... sagðist aftur hafa óverdúsað...og vildi hjálp...

Okkur dauðbrá...áttum síst von á þessari uppákomu....en ég settist með henni fram í gang og Magginn hringdi á sjúkró. Krulli var á vappi bakvið hús á meðan ég sinnti kellu...en kom ekki inn á meðan...

Ég reyndi að tala við ræfils konuna og ég hef aldrei séð jafn órólega og illa tengda manneskju...sem virtist þó njóta þess að fá þessa athygli og var öll hin einkennilegasta...svaraði þó spurningunum mínum og spjallaði heilmikið...En henni finnst ekkert skemmtilegt...á engin áhugamál...langar ekkert...vill ekkert...

Nema kannski flytja til Danmerkur....það væri þá helst það...

Þegar sjúkró kom var hún voða upprifin og var sko alveg með á tæru hvað hún hafði étið og hversu mikið...og að sjálfsögðu sinntu þeir sinni borgaralegu skyldu og fóru með hana upp á slysó...

Hún daðraði aftur smá...

  

Enn sátum við...furðu lostin...og vorum ekki að botna þessa konu. Og Krulli...kjagaði beint inn...var með lykil og allt...og skondraðist inn í íbúðina...sem hann alls ekki mátti....samkvæmt reglum bæjarins...

  

Klukkan tvö um nóttina kom svo konukindin blaðskellandi heim...skutlað af löggunni...voða hress og kát og kjaftaði á henni hver tuska...því hún og Krulli mættust við innganginn...rétt við svefnherbergisgluggann okkar...þvílíkt surprise...!!!

Nú var eins og sjálfur djöfsi gengi laus...dynkir...hróp...skellir... högg...brak...öskur...hurðaskellir...bílar að fara og koma og guð veit hvað ekki var í gangi þarna utan við hurðina okkar...og fjölskyldan hímdi vakandi og lömuð af hræðslu..tilbúin að takast á við innrás eða eitthvað þaðan af verra...með hamar uppivið....ef ske kynni...Sama var upp á teningnum hjá hinum íbúunum...það er að segja þessum fáu sem enn eru eftir...enginn þorði að hiksta eða hósta...allir sátu stjarfir bak við luktar dyr og þannig leið nóttin..

Klukkan sex fór síðasti bíllin...og það datt á dauðaþögn. Við vissum ekkert hvort einhver væri í íbúðinni..lífs eða liðinn...en það þorði enginn fram fyrr en um áttaleytið. Sem betur fer átti ég frí þennan dag...og ég hringdi í skóla barnanna og fékk frí fyrir þau...því þau voru jú nýsofnuð og Minnstan reyndar veik í ofanálag...

  

Loks laumuðumst við fram til að skoða hvort einhver verksummerki sæjust...og það blasti við frekar skelfileg sjón... eyðilegging... glerbrot... spýtnabrak...sígarettustubbar og ógeðslegur fnykur svo maður kúgaðist...

  

Millihurðin í ganginum var löskuð og glerið þar brotið í mél. Hurðin inn í títtnefnda íbúð var í henglum...og spýturnar út um allt. Og lyktin sem barst fram..Ó mæ gooood!!!

Ég hringdi í húsnæðisfulltrúann og hann kom ásamt smið til að líta á eyðilegginguna. Það þorði enginn íbúanna að kíkja inn til að athuga hvort fólk væri þarna inni. En við sáum inn..úff...kattaskítur...hlandpollar...skítug föt og skór...drasl allsstaðar...brotnar mubblur og guð má vita hvað þetta var alltsaman...Löggan kom og fór inn með húsnæðisfulltrúanum...og þarna inni lágu konan góða og Krulli...útúrspíttuð og ógeðsleg...og vissu ekkert í þennan heim eða annan...Sjúkró kom til að kanna ástandið...en sem betur fer þá var þetta víst bara eðlilegt ástand fíkla....og það náðist að vekja þau.

Og þeim ver endanlega hent út.

  

Mikið ofbóðslega fann ég til með þessum vesalingum sem löbbuðu bara út...sísvona...eigandi ekkert athvarf...engan stað til að búa á...bara í fötunum sem þau stóðu...en þau hlógu og fífluðust og fannst þetta bara fyndið.

  „Þau finna sér annað greni“ sagði lögreglumaðurinn sem kom þarna...sá hinn sami og hafði keyrt hana heim af slysó um nóttina....

„Það er nóg af þessum holum út um allt...“

  

Við bjuggumst við eftirmála...en sem betur fer bólaði ekki á neinum...og það hefur ríkt ró og friður í blokkinni okkar síðan....langþráður og kærkominn friður.

Það mætti sveit manna í hvítum samfestingum með grímur fyrir vitunum til að taka til í íbúðinni...setja eigur konunnar í gám og fjarlægja...hreinsa til og þrífa...íbúðin er fokheld núna....  

Þeir fundu hluti í okkar eigu í íbúðinni....sem við vildum ekkert sjá aftur...en eitt af því sem fannst á gólfinu var gamalt bankaskírteini frá Kreditkassen í Noregi...með bankareikningsnúmerinu mínu á og nafni. Það er okkur algerlega hulin ráðgáta hvernig þetta komst þarna inn...???

En...maður hafði sko ekki geð í sér að sjá eða snerta á hlutunum sem þarna voru innanbúðar..oj barasta...

  

Vá hvað þetta er skrýtið...þessi heimur er svo hulinn manni...sem betur fer...maður þekkir þetta ekki...maður skilur þetta ekki...og maður prísar sig sælan að tilheyra honum ekki.

  

Og vonandi er þessi reynsla börnunum mínum viti til varnaðar...

  

Mikið sem maður finnur til með fólki í þessari stöðu í lífinu...en samt svo ömurlegt að það vilji ekki hjálpina sem því býðst...fíknin virðist lífsviljanum bara svo miklu yfirsterkari.....

  

Ég ákvað að deila þessu með ykkur hérna á blogginu..bara svona til að gefa smá innsýn inn í það hversu flest okkar hafa það bara ótrúlega gott...við sem höfum valið „heilbrigðu“ hliðina á lífinu...hamingjusöm og þakklát fyrir það sem við höfum.

  

Þrátt fyrir kreppu...þrátt fyrir erfiðleika...þrátt fyrir að þurfa að takast á við lífið á einhvern hátt í einhvern tíma...þá höfum við það bara alveg ótrúlega gott...er það ekki bara ????

MUNA: -Ég er ákveðin í að vera jákvæð og hamingjusöm, hverjar sem aðstæðurnar eru, því ég hef lært af eigin reynslu að stór hluti af hamingju okkar og að sama skapi vansæld okkar byggist á viðhorfi okkar en ekki kringumstæðum 

-Sjálfsmat byggist á því hvernig ég raunverulega met sjálfan mig. Aðrir munu síðan meta mig í samræmi við mitt eigið sjálfsmat.

-Ég trú því að ef þú eltir drauminn sem þú átt, þá mun hann rætast.  

 

 

Lovjú mikið….


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband