Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

...LÆRÐU LEXÍURNAR ÞÍNAR....

         

Nokkrar góðar lexíur....

 

Lexía 1:  


Maður fer í sturtu rétt í þann mund, er konan hans er að ljúka sinni og dyrabjallan hringir.
Konan vefur um sig handklæði og hleypur til dyra.
Hún opnar hurðina og úti stendur Biggi úr næsta húsi.
Áður en henni tekst að koma upp orði segir Biggi:  "Ég gef þér hundraðþúsund ef þú lætur handklæðið falla".
Hún hugsar sig um smá stund og lætur svo handklæðið falla og stendur nakin fyrir framan Bigga.  Eftir nokkrar sekúndur lætur Biggi hana fá hundraðþúsund og fer.
Konan vefur handklæðinu aftur utan um sig og fer aftur inn.
Þegar hún kemur inn á bað spyr eiginmaðurinn:  "Hver var þetta?"
"Þetta var Biggi í næsta húsi", svarar hún.
"Frábært", segir maðurinn, "nefndi hann eitthvað um þessi hundraðþúsund sem hann skuldar mér?"

Boðskapur sögunnar:

Ef þú deilir mikilvægum upplýsingum varðandi lán og áhættu með hluthöfum tímanlega geturðu verið í aðstöðu til að koma í veg fyrir óþarfa afhjúpun...


Lexía 2:
 


Prestur bauð nunnu far.  Hún settist inn og krosslagði fætur, sem varð til að bera fót hennar.
Presturinn missti næstum stjórn á bílnum.  Eftir að hafa náð stjórninni aftur, strauk hann hendinni laumulega upp eftir fæti hennar.
Nunnan sagði þá: "Mundu eftir Orðskviðunum 10:4".
Presturinn dró að sér hendina, en þegar hann skipti um gír strauk hann hendinni aftur upp eftir fæti hennar.
Aftur segir nunnan:  "Mundu eftir Orðskviðunum 10:4".
Presturinn afsakaði sig og sagði: "Fyrirgefðu systir, holdið er veikt".
Er þau renna í hlað við klaustrið andvarpar nunnan þunglega og fer sína leið.
Þegar presturinn kemur í kirkjuna flettir hann upp Orðskviðunum 10:4.  Þar stóð:  " Snauður verður sá, er með hangandi hendi vinnur,  en auðs aflar iðin hönd".

Boðskapur sögunnar:

Ef þú ert ekki vel upplýstur í starfi þínu gætirðu misst af stórkostlegum tækifærum....

 

 

Lexía 3:  


Sölumaður, ritari og deildarstjóri eru á leið í mat þegar þau finna fornan olíulampa.
Þau nudda lampann og út kemur töfraandi.  Andinn segir: "Ég veiti hverju ykkar eina ósk".
"Ég fyrst!  Ég fyrst!", segir ritarinn.  "Ég vil vera á Bahamaeyjum á hraðbát algerlega áhyggjulaus".  Og púff!  Hún er horfin.
"Næst ég!  Næst ég!", segir sölumaðurinn.  "Ég vil vera á Hawaii að slaka á með einkanuddara og endalausar birgðir af Pina Colada og ástinni minni".  Og púff! Hann er horfinn.
"Allt í lagi, það er komið að þér", segir andinn við deildarstjórann.
Deildarstjórinn segir:  "Ég vil að þessi tvö verði komin aftur á skrifstofuna eftir mat".

Boðskapur sögunnar:

Alltaf láta yfirmanninn tala fyrst.....

 

 

 

 

Ha ha ha!!!!

 

 

EIGIÐ GÓÐAN DAG!!!!


...EIGIN GÆFU SMIÐUR...........

                          

       Ljón: Það er mikil togstreita innra með þér svo að þú átt erfitt með að einbeita þér. Nú er sú törn á enda og komið að því að þú njótir næðis um stund.

Ekki amalegur boðskapur að morgni sunnudags....

  

Það skrýtna er að þetta er svo innilega rétt að það eiginlega er ekki fyndið...

  

Í nokkuð mörg ár meira að segja hef ég verið að kvelja sjálfa mig með ákveðnum hlut....hlut sem er mér svo ótrúlega mikilvægur en ég hef haldið niðri með hræðsluáróðri við sjálfa mig...ótta og þrjósku dauðans.

  

Kannski fíflalegt að segja frá en ekki sérlega notalegt að bera....og kannski líka betra að opinbera til að forðast þann pytt að skríða í aftur...

  

Ég muldi mitt eigið sjálfstraust niður í mylsnu og trúna á eigið ágæti líka...á þessum vettvangi að minnsta kosti og svo hef ég nagað sjálfa mig að innan...og kvalið...svolítið meðvitað...en töluvert ómeðvitað líka....

Ég er sem sagt að tala um skriftirnar mínar....Ég hef nærst og blómstrað í gegnum lífið á því að skrifa sögur og búa til alls konar heima þar sem ég ræð öllum aðstæðum...upphafi...miðju og endi...Ég hef frá því ég var agguponsa skreytt umhverfið mitt með frásögnum...sönnum og ósönnum...bullað og ruglað og hlegið manna hæst að öllu saman..notið þess að skálda upp heilu fráagnirnar og oft fengið hrós fyrir....Ég labbaði milli húsa...lítil skotta...og sagði fólki alls konar sögur...bjó til frásagnir af fjölskyldunni minni og aðstæðunum heima....og ef mig langaði í til dæmis vorkunn..þá fékk fólk að heyra hvað allir væru vondir heima hjá mér... úff...skammastín addna....en ef ég var bara að fanga athygli..sníkja nammi eð eitthvað...þá sagði ég frjálslega frá skemmtilegum uppákomum á heimilinu...Fólk hló og klappaði mér á hausinn...sagði að ég væri nú meiri skáldkonan...og ég myndi örugglega skrifa bækur þegar ég yrði stór...Það þótti minni nú afar merkilegt...bókaormurinn sjálfur....hugsa sér...að skrifa bækur og vita að þær yrðu lesnar alls staðar og hvergi...???Ég hafði mikið dálæti á Þórbergi og Halldóri Laxness...og ætlaði mér fljótt að skrifa miklu fleiri bækur en þeir..

Markið kannski sett aðeins of hátt...en alveg í samræmi við sjálfsálit og trú á eigið ágæti á þessum tíma....

  

Á skólaárunum naut ég þess út í það óendanlega að skrifa sögur og ritgerðir... elskaði íslenskutímana og stafsetninguna...fílaði í tætlur að fá að lesa upp sögur og ljóð og datt ekki í hug annað en að þetta væri frábært hjá mér...búin að heyra það heima og hjá kennaranum...og fékk svo líka klapp frá bekkjarfélögunum....

Sat heima og skrifaði heilu bækurnar um spæjara...ræningja...tatara....fátæk börn....börn sem áttu enga foreldra en spjöruðu sig samt... börn sem voru í leynifélögum og björguðu fólki....og  guð má vita hvað þetta fjallaði allt um..mér var eiginlega alveg sama ...bara skrifa...skrifa og skrifa meira....Þess á milli sat ég við bókaskápinn heima og las...þræddi bókasöfnin og sankaði að mér bókum....bjó til leiki og leikrit úr þeim og kom þeim inn í dúkkó og barbíleiki....eltingaleiki....feluleiki og meira að segja hjólaleiki...

 

Ég elskaði að vera með vinkonum og vinum...en ég elskaði jafn mikið að vera ein með dúkkunum mínum og stjórna þeim...ráða öllu sjálf...láta þær vera þessi eða hinn...búa til nöfn... og leikritið var óendanlegt...hugmyndaflugið ótæmandi...

 

 

 

Mamma og pabbi pikkuðu út sögur og sendu í útvarpsþætti og alls kyns keppnir...blöð og tímarit...og mér þótti sko ekkert að því....

Ég fékk verðlaun og viðurkenningar og var voða glöð með það....var boðið nokkrum sinnum í útvarpið..og fór meira að segja alein til Svíþjóðar í viku...verðlaun fyrir ritgerð um Norðurlöndin...skemmti mér bara vel og hafði sko ekki áhyggjur af því að geta ekki talað....ég bara talaði....

  

Þetta var ljúft...ég var svo örugg og ég vissi svo vel að ég gat....og það kom aldrei neinn sem sagði að eitthvað væri ekki nógu gott...að ég ætti að breyta einhverju eða gera öðruvísi...ég mátti hafa þetta allt alveg eins og mér sýndist....

Eina breytingin á unglingsárunum og menntaskólaárunum var að maður fékk einkunnir...átti að setja ritgerðirnar upp á ákveðinn hátt og svoleiðis...en það var ekki flókið að fylgja þeirri skipun...og ég naut mín....Og í ritgerðarprófunum spændi ég upp arkirnar...hafði svo miklu frá að segja...og fékk stundum pot frá skólafélögunum...sem fannst bara að ég ætti að skrifa fyrir mína hönd og þeirra allra....

Ég spáði einstaka sinnum í það að aumingja kennararnir þyrftu að lesa ógó mikið þegar ég átti í hlut...en þeir kvörtuðu aldrei...

  

Í Fósturskólanum hélt ég áfram...og fékk bara klapp á öxl...sprengdi einhvern tímann einkunnaskalann...og svo voru barnabókmenntatímarnir alveg að gera eitthvað fyrir mig sko...vááá hvað ég naut mín!!!

Svo fór maður nú út í lífið...bjó til sögur og söngtexta í leikskólanum og fyrir krílin heima....tók svo stóra ákvörðun og ákvað að skrifa bók...láta verða að þessu....

Fékk pepp við að fá birta sögu í bók ásamt mörgum þekktum höfundum og fannst það eitt og sér mjög skemmtilegt...en vildi samt frekar skrifa mína eigin....

Ég skrifaði og fékk gefna út mína fyrstu bók....og fékk fína ritdóma...góða sölu og fannst þetta nú ekki sérlega flókið...svo ég byrjaði á næstu....Ég var reyndar akkúrat komin á þann stað í lífinu að verða mamma...og tók  það með trompi eins og annað...átti þrjú börn á fjórum árum og þótti það nú ekki sérlega mikið mál...enda krílin algerlega yndisleg....og ég fékk alltaf næði til að skrifa...því þau voru sofnuð rétt eftir kvöldmat og því nægur tími til að setjast við tölvuna...og leika sér....

Og Magginn sá um að þrífa og taka til....svo ég gæti setið í tölvuherberginu án þess að hafa nagandi samviskubit út af heimilinu...

  

Ég skrifaði sögur.....og ég skrifaði revíu....sem ég svo fékk meira að segja að vera með í að flytja hjá leikfélaginu á Dallanum....og vááá hvað ég skemmti mér...þetta var bara gaman!!!

Ég var meira fyrir að gera sögurnar og leikþættina en ljóðin...en var samt alltaf öðru hvoru að skrifa bundið mál...og búa til texta við hin og þessi lög og flytja með vinnufélögum og vinum...á árshátíðum og þorrablótum...stundum fjölskyldunni líka....

Það besta var að ég var ALDREI í vafa um eigið ágæti...hrópaði það svosem ekkert á torgum endilega...en innaníið var í fínu lagi....

  

Þegar ég skrifaði bók númer tvö var ég alveg sannfærð um að allir sem hana myndu lesa myndu verða jafn hrifnir af persónunum og ég því ég elskaði þær alveg í botn...þótti gríðarlega vænt um þær og varð stundum að minna sjálfa mig á að þær væru ekki lifandi...heldur tilbúnar....en ég hafði miklar væntingar og hlakkaði gífurlega til að koma þessum persónum inn á heimili landans.....

  

Ég bjó í Noregi á þessum tíma...sem var galli...

 Ég sendi bókina til Íslands...og hún kom út í jólabókaflóðinu ´98.... og... drukknaði þar...

Ég fékk enga dóma...engin komment...ekkert...

Hún seldist svosem þokkalega...en ekki nærri eins vel og ég hafði trúað...Og þarna....hrundi sjálfstraustið....styrkurinn og trúin...algerlega...Ég brotnaði að innan....fannst ég alveg ómöguleg og auðvitað hafði enginn áhuga á þessari bók...ég væri langt í frá nógu góð til að vera að skrifa....fáránleg hugmynd...að láta sér detta það í hug...!!!Og svo tók við skrýtið tímabil...þar sem ég skrifaði ekki mikið....varla neitt...nema fyrir skúffuna kannski....samdi ljóð fyrir ættingjana ef þeir báðu um það...en fannst þessum kafla í lífinu að mestu leyti lokið...skelfilegur sannleikur...sem hefur kostað nokkur sölt tár...segi ekki meir..en Pollýanna sagði samt aldrei neitt...

Og það var erfitt...ó mæ gooood....því það var bara ekki ég....að skrifa ekki fyrir einhverja...geta ekki skemmt öðrum eða glatt með orðunum....og sama hversu mikið ég heyrði um bókina mína frá almenningi...úr bókabúðum og frá ættingjum....þá var þetta ekki frábær bók...þau sögðu það bara til að gleðja mig....hughreysta og vera almennileg....ég hafði enga trú á að þeim þætti í rauninni nokkuð í hana varið...

Ég hef enn ekki einu sinni lesið hana í heild fyrir mín eigin börn...en þau nældu sér í hana sjálf og lásu í skólanum...og einn bekkjarkennarinn tók hana sem valbók í nestistímanum og las fyrir bekkinn...en þetta var náttla nokkrum árum seinna....þegar við vorum aftur flutt heim og börnin farin að ganga í skóla....

Ég fór að heyra skemmtilegar athugasemdir og eignaðist nokkra aðdáendur....en það var bara einhvern veginn of seint....

  

Magginn gerði allt til að hvetja mig áfram...fór að ýta við mér með reglulegu millibili...hvatti mig til að setjast við tölvuna og skrifa bara eitthvað...eitthvað sem ég gæti eytt aftur....eða geymt...það þyrfti enginn að sjá það einu sinni...bara skrifa..því það væri mín næring...minn lífskraftur...

  

Ég þrjóskaðist náttla við...eins og andskotinn sjálfur....en laumaðist þó svona inn á milli að hnoða saman textum...sem ég ýmist eyddi aftur eða geymdi....

 Einhvern tímann var ég heima með gesti sem fóru að tala um blogg...Ég var rosa hissa...blogguðu þær??? Jájá, þær blogguðu og það var geggjað gaman...   

 

Ég kíkti á þetta um kvöldið og fannst soldið spennó...svo ég bjó mér til síðu....en sagði nú ekki mörgum frá...laumaði mér inn á bloggar.is og var ekki lengi að finna mig á þessum vettvangi...

Mér var hins vegar slétt sama hvort einhver kíkti á þetta blogg mitt...og ég kommentaði sjaldan eða aldrei hjá öðrum....þó ég væri fastur lesandi á mörgum síðum....

  Það var eiginlega ekki fyrr en Lóan mín yndislega fór að blogga se ég fór að setja inn eitt og eitt komment....og fá á móti fleiri heimsóknir inn á mína eigin síðu...

Það gaf nú soldið kikk ef þið spyrjið mig....það hreyfði við‘ einhverju innra með mér...og ég fann að það var eitthvað þarna sem ég hafði lokað kyrfilega á...löngunin fór að bæra á sér og ég hugsaði með mér að kannski....ætti ég bara að prófa aftur????

Ég gerði það....og á ýmislegt til...en það var bara eitt sem truflaði...ég þorði ekki að klára...því þá væri ég komin á þennan punkt að þurfa kannski að fara af stað út fyrir öryggið og fá kannski annan skell....  

Ég er því búin að draga lappirnar...leeeeengi....en síðustu helgi tók ég mig saman í andlitinu og KLÁRAÐI bók...kláraði að skrifa bókina sem ég er búin að vera með í allavega fimm ár í vinnslu....og meira að segja með frábæran  yfirlesara sem var farin að banka harkalega á dyrnar...því hana vantaði endinn...!!!

  

Ég var ótrúlega stolt af sjálfri mér...klukkan hálfsex að morgni sunnudags...búin...búin...Búin!!!

Svo sat ég og horfði á tölvuskjáinn og hugsaði....spurði sjálfa mig hvað ég ætlaði nú að gera???Eftir töluvert langa mæðu...tók ég ákvörðun...ég ætla allavega að prófa að fara til útgefanda...og sjá svo til....

Þetta var sigur. Þetta var mikill persónulegur ávinningur fyrir mig í minni gríðarlega miklu innri togstreitu....

  

Og til að hætta ekki við að reyna allavega...þá ákvað ég að blogga...svo ég eigi erfiðara með að bakka út...eða geti það jafnvel ekki...því ég veit ég á vini....

  

...og þó ég spái ekkert endilega svo mikið í hvort ég fái 3 eða 300 heimsóknir á bloggið mitt...þá líður mér bara alltaf svo vel því þá er ég búin að fá útrás...án þess að troða herlegheitunum ofan í skúffu...kannski gleðja einn eða tvo...kannski skapa umræðu við einn eða tvo...en gefa ekki sjálfri mér færi á að grafa þennan neista...sem sumir kalla hæfileika...henda út í tómið...þar sem ekkert er.....

  Og nú er ég búin að rasa hérna út....fá útrás fyrir hugsunum og tilfinningum...og er tilbúin til að takast á við það sem kemur næst...hvað sem það svosem verður...

Feimin...en stolt....

  

Eigið öll góðan dag...þið sem nenntuð að klóra ykkur í gegnum þetta uppgjör mitt...

MUNA:“Verkefnið verður að fjalli þegar þú hefur það fyrir framan þig í heilu lagi.

Ef þú brýtur það niður í smærri einingar, sem auðveldara er að ráða við, verður miklu léttara að ljúka því og láta það ekki dragast.“

Elskjú...

 


....HUGSA SÉR...EF...

Það er eins og öll lætin og óróleikinn sem hafa skapast á klakanum undanfarna mánuði ýti undir það að maður fer sjálfur að ókyrrast...skoða umhverfið og aðstæðurnar og taka svo sjálfan sig í djúpa naflaskoðun....

 

Pælingarnar um það hver maður er og hvaða tilgang líf manns hafi eru mun áleitnari og eins hvaða framtíð bíði manns...hvers konar aðstæður eru að skapast eða munu skapast???...hvað bíður barnanna minna???hvað bíður barnanna þeirra???barna framtíðarinnar????

 

Hvað erum við að gera landinu okkar og hvað erum við að leyfa öðrum að gera landinu okkar og okkur sjálfum???

 

Hvernig eigum við sem þjóð að bæta þann skaða sem nú þegar er skeður og koma í veg fyrir stærri og meiri skaða...og passa að þetta eða eitthvað svipað geti nokkurn tímann endurtekið sig...'???

 

Maður er svo ringlaður...skilur ekki hvernig í ósköpunum allt gat farið á hvolf...án þess að nokkur fengi við það ráðið...og það er bara mjög flókið að átta sig á hverjir eru sekir og hverjir ekki...

 

Þeir sem eiga stærstan hlut í hruninu vilja meina að við sem byggjum landið séum jafnsek...en ég er ekki tiilbúin að kyngja því...ég varð aldrei vör við neitt góðæri og ég naut ekki góðs af þessum auði sem átti að vera til hér á landi...ég ætla ekki að axla þeirra ábyrgð...hef nóg með mína...ég segi nei við þeirra ásökunum en horfi ásakandi á þá...og spyr: Hvað ætlið þið að gera??? Flýja land og velta ykkur upp úr vellystingunum sem bíða ykkar annarsstaðar...eða standa með sjálfum ykkur og koma klakanum á flot aftur...án skuldbindinga...án ofurlauna...án valdagræðgi...án þess að fá eitthvað í staðinn...annað en endurheimt stolt þjóðar sem vissi ekki að það væru svikarar á meðal vor...þjóð sem trúði því að útrásin væri heillavænleg...vel skipulögð og trygg...væri landinu til framdráttar og framtíðinni til sóma....????

En Júdasarheilkennið var of ríkt í ykkur.....   

     

                                           

Af hverju var ekki allt þetta fé notað til að lækka skatta...hækka laun og bæta aðstöðu þeirra sem byggja þetta land???

 

Það hefði verið hægt að gera stórkostlega hluti hérna fyrir þessa aura...og það hefði þá svo sannarlega verið réttnefni að Ísland væri besta...ríkasta og stórasta land í heiminum....

 

Hugsa sér...ef til dæmis lyfin sem sumt fólk verður að taka...væru ókeypis...hjartalyf...blóðþrýstingslyf...lyf sykursjúkra... asthmasjúkra ... flogaveikra...krabbameinssjúkra...geðsjúkra...og guð má vita hvað þetta allt saman heitir...hugsa sér ef það væri þannig að lyfjakostnaðurinn væri ekki að sliga sum heimili....

 

Og hugsa sér...ef tannlæknaþjónustan væri greidd að fullu niður af ríkinu...þá gætu ALLIR nýtt sér hana...sem og hjartavernd... krabbameinseftirlit... augnlækningar...bæklunarlækningar...já..allt þetta sem fólk á að geta haft aðgang að og huga þannig að heilsu sinni...en er of dýrt fyrir suma og ótrúlega margir hafa hreinlega ekki efni á að nýta...

 

Hugsa sér ef þessir peningar hefðu komið heilbrigðisstéttunum til góða...umönnunarstéttunum....ófaglærða fólkinu sem heldur landinu gangandi með ómissandi störfum sínum....í leikskólum...á spítulum...á elliheimilum...í verslunum...á þjónustustöðvum....veitingastöðum... fiskverkunarfólkið... sorphirðufólkið....matvinnslufólkið....

 

Hugsa sér ef skólakerfið hefði líka fengið svolitla sneið...hærri laun og fleira fagfólk...meira rekstrarfé og betri aðstæður fyrir börnin okkar... öruggara umhverfi...betri og markvissari leiðir til að koma í veg fyrir hluti eins og einelti....ókeypis matur í skólunum og ókeypis þjónusta fyrir börnin í leikskólunum...þar sem grunnurinn að framtíðinni er lagður...

 

Hugsa sér ef fatlaðir einstaklingar hefðu betri aðstæður að lifa við...meiri þjónustu...tryggari aðstæður...skjótari aðgang að öllu sem þeir þurfa svo sárlega á að halda...minni bið...markvissari þjálfun...minna óörggi...sterkari einstaklingar....

 

Hugsa sér ef vegirnir okkar hefðu líka fengið svolítið meira...einbreiðar brýr heyrðu fortíðinni til....tvíbreiðir þjóðvegir allan hringinn...öflugra vegaeftirlit...minni slysahætta...færri slys...og enn færri fórnarlömb slíkra slysa....minni sársauki og ennþá minni þjáning...

 

Hugsa sér ef peningarnir hefðu líka verið notaðir til að koma þaki yfir alla þá sem búa á götum borgarinnar...byggt upp aðstöðu til að aðstoða það fólk....veita skjól...mat og hreinlætisaðstöðu...finna lausnir og jafnvel létt störf sog hobbíaðstöðu til að hafa eitthvað annað við að vera en ráfa um....styrkja og styðja...hugga og uppörva...

 

Hugsa sér hvað margir hefðu það betra í dag...ef peningunum hefði verið varið í þessa hluti eða einhverja hliðstæða...í stað þess að vera tímabundin skemmtun og ánægja nokkurra aðila...leiktæki ofurhugaðra gamblara sem sáu bara daginn í dag...en skildu ekki að það kemur nótt og annar morgunn...nýr dagur sem krefst jafn mikils og gærdagurinn...

 

Hugsa sér hvað lýðveldið Ísland væri flott í dag...ef......

 

 

 

Núna standa byggingasvæðin tóm..kranarnir kyrrir við hálfbyggð húsin......minnismerki um góðæri fárra auðjöfra sem gleymdu að hugsa dæmið til enda...

 

Núna standa fyrirtæki auð og yfirgefin...verslanir tæmdar og bílasölurnar smekkfullar af óseljanlegum Range Rowerum og Hömmerum... jeppum...fyrirtækjabílum...sendibílum og vinnubílum....smábílum og hjólhýsum...fellihýsum og kerrum...sem eru svo sligaðir af okurlánum að enginn getur keypt eða selt...

 

Núna sitjka margir og sjá ekki framtíðina...atvinnulausir... verkefnalausir...vonlausir... skuldugir upp fyrir eyru....og geta ekki staðið við skuldbindingarnar sem skyndilega urðu óyfirstíganlegar...

 

Núna riða heimilin til falls...hamarinn verður þyngri og þyngri í höndum uppboðsaðilanna...sýslumennirnir klóra sér í hausnum og lögmennirnir vita ekki hvaða mál þeir eiga að draga úr bunkanum næst...

 

Núna situr gamla ríkisstjórnin og horfir með hæðnissvip á nýju stjórnina sem hamast við að gera eitthvað...en veit varla hvar skal byrja...af nógu er jú að taka....og spurning hvaða lausnir finnast þar...eða hvort einhverjar lausnir séu yfirhöfuð til???? Tjah...maður spyr sig????

 

Maður reynir að vera bjartsýnn...trúa á að þetta sé í rauninni bara gott svona til lengri tíma litið...þetta hafi þurft að gerast til að stöðva tímann...staldra við og skoða hlutina upp á nýtt...sjá                          heildarmyndina...átta sig á því hvað það er sem skiptir í rauninni máli og hvað það er sem er ekki þess virði að eyða orku og tíma í...

það má aldrei missa trúna....því þó allt sé dökkt í augnablikinu...þá birtir alltaf upp um síðir...það er bara lögmál sem maður verður að halda fast í...trúin er það sem heldur manni á floti...trúin á að hlutirnir verði betri á morgunn...ennþá betri næsta dag...og fari svo bara batnandi með hækkandi sól....

 

En...maður skilur svosem að það er ekki endalaust hægt að leika Pollýönnuleikinn...það er ekki alltaf alveg að virka...

 

"Ha ha ha...iss..þó maður missi húsið sitt..vinnuna og bílinn..ha ha ha...það hefði getað verið verra...ha ha ha...þó við höfum ekkert að éta...eigum ekki fyrir leigunni eða getum ekki hitað kofann..ha ha ha...þetta hefði getað orðið miklu verra...je wright!!!"

 

Nei...sá leikur er ekki alltaf að gera sig...góður að vissu marki...en stenst ekki alveg allar aðstæður....

 

Skrýtið að ég segi þetta....oft nefnd Pollýanna sjálf...He he....

 

Skrýtið...ég ætlaði ekkert að skrifa þetta...,ég ætlaði að blogga um allt aðra hluti...alltallt aðra hluti...en þetta er greinilega eitthvað sem varð að fá útrás....eitthvað sem lá þungt á mér...losnaði úr læðingi og læddist í gegnum lyklaborðið....

 

Jæja...þá það...hitt kemur bara seinna....verður voða spennó...he he... 

 

MUNA: Láttu óttann ekki ná tökum á þér - haltu honum frá þér.Lífið er röð lexía sem maður verður að upplifa til að skilja…  

Njótið helgarinnar elskulegust!!!!

Lovjú!!!!


HVAÐ GERÐU ÞEIR ÞÉR, ÍSLAND???

    

 

  

Er reiðarslagið dundi yfir ráðvillt Ísaland

 

og risarnir í útrásinni sigldu öllu í strand

 

Svo vanmáttug ég sat og vissi ekkert í minn haus

 

veröld virtist hrunin,ég var alveg varnarlaus.

  

 

Þó ekki væru peningar að plaga lífið mitt

 

persónuleg mál í höfn og ég og bankinn kvitt

 

Þá leið mér eins og látist hefði ástvinur mjög kær

 

líðanin var hræðileg, ég tók mér þetta nær.

  

Að skilja þessar upphæðir sem nefndar voru þá

 

er þraut sem mér var engan veginn mögulegt að ná

 

Milljarðar og billjarðar sem enginn gat gert skil

 

upphæðir í peningum sem aldrei voru til.

  

Þó fannst mér svikin verri, að ég tali ekki um

 

skítlegheitin sem að viðhöfð voru í bönkunum

 

Óþverrinn og óheilindin falinn allmörg ár

 

ótrúlegt að enginn hafi stöðvað þetta fár.

  

Almúginn sem hafði ei um skítinn grænan grun

 

stendur eftir slipp og snauður eftir þetta hrun

 

Heimilin á heljarþröm, af krónu engin not

 

Óöryggið endalaust og allt á leið í þrot.

  

Atvinnan svo tvísýn öll og framtíð dimm og grá

 

enginn veit hve ástand þetta lengi vara má

 

svo vont og sárt mér finnst að sjá hvar skaðinn mestur er

    stoltið helsært, staðan slík að illa hjartað sker.     

 

Ráðamenn svo rænulausir sannfærðu ei neinn 

svikin voru opinber og hvergi skjöldur hreinn

 

enga miskunn sýndu landsmenn þessum hnípna her

 

mótmæltu uns stjórnin neyddist til að segja af sér.

  

Í stjórnleysi og glundroða við flutum stefnulaus

 

fólkið krafðist réttlætis og þoldi ekkert raus

 

búsáhaldabyltingin hún skilað hefur því

 

að landið okkar endurheimtir kannski traust á ný.

  

Hvað verður um þig landið mitt er óljóst enn um sinn

 

ég held þó að með tímanum þá hýrni klakinn minn

 

Hið Nýja Ísland verður byggt á heiðarlegan hátt

 

hérna munu Íslendingar heilir lifa í sátt.

                                                                                        Bergljót Hreinsdóttir 2009.

 

 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband