Jólakveðja 2011.
24.12.2011 | 16:54
Nú komið er að því að kætast að nýju
því jólanna hátíð sér kvatt hefur hljóðs.
Nú umvefur heimur oss ástúð og hlýju
því hátíðin öllum skal verða til góðs.
Himnesk er birtan sem lýsir og ljómar
litskrúðug ljósin fá myrkrinu eytt
úr húsunum glaðlegur söngurinn hljómar
hvert einasta skúmaskot upplýst og skreytt.
Gleðin er einlæg og gjafirnar fínar
gómsætur matur og sælgætisflóð
og mannanna börnum í hjartanu hlýnar
af kærleik sem umvefur hali og fljóð.
Við óskum þess heitt að hver einasti maður
í heiminum eigi sér framtíð og skjól
að veröldin verði sá friðarins staður
sem honum var ætlað hin alfyrstu jól.
Við biðjum þess nú að þið njótið þess besta
að björt verði nýársins blessaða sól
að hamingjan faðmi og knúsi sem flesta
að eignist þið öll sömul gleðileg jól!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.