...SÚKKULAÐIÓRATORÍA....

 

GLEÐILEGA PÁSKA ALLIR SAMAN!!!! 

Þá er páskaeggjaleitinni lokið þetta árið...he he...en ef þið hefðuð gaman af að spreyta ykkur þá er hann hér....
Svörin koma í næsta bloggi....thí hí... 


PÁSKALEIKUR 2008....
LEITIN AÐ EGGJUNUM GÓÐU...
 
 


FYRSTA VÍSBENDING:
 

Árla morguns eldhress mamma
eitruð fer um hús að þramma
hennar fyrsta verk er það
að koma við á einum stað
brátt fer býtið hér að hljóma
dúerttinn er þeim til sóma. 


 
ÖNNUR VÍSBENDING:

Stundum verður mönnum mál
þá meiga nota vissa skál
þykir gott í góðu næði
að athafna sig, gera bæði
þarfaþing þar nálægt er
í lokin fléttuð þjónar þér.


 
ÞRIÐJA VÍSBENDING:

Er flutningunum loksins lauk
í horni áttum engan hauk
úr Ógeðshúsi í stofu gnæfði
okkar huga ákaft æfði
í Sorpu sendum ferlíkið
á sama stað bættist betra við....


 
FJÓRÐA VÍSBENDING....

Teppahrúga huldi það
í öðru húsi, á öðrum stað
gagnlegt reyndist ekki vera
þurfti sjaldan þungt að bera
aukakíló ættu að fjúka
ef einhverjir nenntu á þetta að rjúka....


FIMMTA VÍSBENDING:

 
Þegar flíkur fara að skitna
á þessu fer endalaust að bitna
margar gerðir má víst finna
sem lykta bara meira og minna
ósköp vel en þessi er best
mamma notar hana mest....


 
SJÖTTA VÍSBENDING:

Sænskir frömuðir fundu út
að fúlt það er að sitja í hnút
því lögðu þeir heilana sína í bleyti
og sendu svo hver öðrum heillaskeyti
þeir fundu lausn sem þótti flott
að sitja á Hermanni er svo gott.....


SJÖUNDA VÍSBENDING:

Ein jólin fannst henni mömmu svo svalt
að gefa það sem væri ei kalt
hún arkaði um og leitaði vel
og vandaði valið, ég sannlega tel
á góðum stað hangir þessi snilld
sem bóndinn nú getur víst notað af villd....


 
ÁTTUNDA VÍSBENDING:

Hann pabbi kom eitt sinn heim með hann
og mamma starði á gefandann
því eitt sinn hún fleygt hafði einum slíkum
fékk ógeð á gripnum og öllum hans líkum
því fitugur verður og forugur gjarna
þótt vinsæll hann teljist nú oft meðal barna....


 
NÍUNDA VÍSBENDING:

Úff, ef þú opnar og veist ekki betur
en tekur þá áhætt að sjá nú hvað setur
er öruggt að nebbinn þinn kvarti og kveini
en fýluna geymir þó staðurinn eini
sem betur fer fylgdi hann húsinu góða
og geymir nú hluti sem inn vilt ei bjóða...

 
TÍUNDA VÍSBENDING....

Á páskunum ætlum að hafa það náðugt
þó fólk vilji alls ekki telja sig gráðugt
á stað einum stendur eitt ferklíki núna
sem stikna mun síðar, fá húð á sig brúna
sem ungabarn útlitið getur þig blekkt
en þó er nú kvikindið alls ekkert kvekkt....


ELLEFTA VÍSBENDING:

Í sumar mun sólin á himninum dvelja
sólarvörn búðirnar ört munu selja
þá getum við kúrt þarna sólbrún og sæl
án kallsins í neðra, nú er ekkert væl
en grannarnir umhverfis njóta þess líka
þar ef til vill myndast mun ágætis klíka...


 
TÓLFTA VÍSBENDING:

Í kuldanum kunna þeir langbest við sig
en langar þó gjarnan að dekra við þig
þeir elska að láta þig halda á sér
og helst vilja gefa þér bita af sér
daprir í bragði ef enginn þá sækir
en arga af gleði ef í þá þú krækir....


 
ÞRETTÁNDA VÍSBENDING:

Opnast þessi oft á dag
á henni kunna flestir lag
bak við handfang holan dimm
leyndardóminn geymir grimm
óttast þarf þó enginn það
að koma við á þessum stað...
.
 

FJÓRTÁNDA VÍSBENDING....

Einu sinni í poka var

varningur sem ilminn bar

nytsamlegra þótti þá
í þennan merka hlut að ná
nú raðast pokar einn og einn
í hólk sem stendur alveg beinn....


 
FIMMTÁNDA VÍSBENDING:

Sýprusarnir saman tveir
stóðu í þessum, en síðar meir
hent þeim var á ruslahaug
því sólin úr þeim kraftinn saug
undirstaðan enn er hér
útiloftið um þá fer....


SEXTÁNDA VÍSBENDING:

 
Lítil skotta laumast til
að lúra þar, ég hana skil
þarna kúldrast lengi getur
þótt sjaldan gert það hafi í vetur
að vera þar þó telur svik
ef gert hún hefur skammarstrik....


SAUTJÁNDA VÍSBENDING:

Sending barst á heimilið
það brugðust flestir glaðir við
en einn þó kættist allra mest
því þetta reyndist honum best
hluti þess sem fjarlægt var
býður núna förgunar.....


ÁTJÁNDA VÍSBENDING....

Laugardagar leyfa það
að leita eins á vísum stað
með krónkalla í krumlu ferð
og kaupir sætt af bestu gerð
í fötu berð það ekki heim
því heldur ei með höndum tveim.....

NÍTJÁNDA VÍSBENDING:

Það er svo skrýtið með einn stað
að þó ei nokkur viti það
þá heimsfrægð gæti falið hann
ég útskýringu enga kann
skilaboðin berast bara
honum framhjá ei þau fara.....


TUTTUGASTA VÍSBENDING:

Unaðslegan ilminn ber
út í eldhúsið hjá þér
sparigræja þarna situr
óskaplega ein og vitur
glæný hefur ekki enn
bakað oní neina menn....


TUTTUGASTAOGFYRSTA VÍSBENDING....

Um vefinn getur flakkað glaður
skoðað allan heiminn, maður
getur orðið þreyttur, lúinn
algerlega tæmdur, búinn
huggun mun þín sjálfsagt vitja
þú heppinn ert að fá að sitja....


 
TUTTUGASTAOGÖNNUR VÍSBENDING:

Húsbóndinn fann góða leið
sem varð honum ósköp greið
vildi hvíla huginn þreytta
athöfn finna nýja, breytta
tók sér litaflóð í hönd
framkallaði höf og lönd...


TUTTUGASTAOGÞRIÐJA VÍSBENDING....

Úr Hafnarfirði bárust þeir
saman komu báðir tveir
þar hvílum gjarnan þreyttan kropp
þömbum gos og étum popp
til stuðnings fylgdu mjúkir með
þeirra njótum eftir streð....


TUTTUGASTAOGFJÓRÐA VÍSBENDING....

Glamrandi og glymjandi
gaulandi og rymjandi
tólið getur glatt þitt geð
þér gaman finnst að raula með
Skalinn upp og niður æðir
Áheyrandinn á því græðir....


TUTTUGASTAOGFIMMTA VÍSBENDING....

Nornafundi mamma sækir
málin ekkert frekar flækir
sambandi fær oftast náð
fyrir því við getum spáð
finnst þó best að geyma spil
á stað sem börnin ei ná til......


SÍÐASTA VÍSBENDINGIN:

Þreytan ykkur þjakar nú
á því hef ég nokkra trú
en ef þið viljið eggin finna
gæta verð hér orða minna
heimasætan hefur stað
sem gæti núna verðskuldað
heimsókn þriggja ærslabelgja
sem langar egg í sig að svelgja
hærra en hausar ykkar ná
gáfulegast er að gá...ójá.....




Það tók grísina þrjá 76.mínútur að finna eggin sín...og voru þau bara lukkuleg með það!!!!!

 Eigið góðan dag!!!!!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk Ásdís...já grislingarnir eru ansi vanir og hafa stundað páskaeggjaleit frá því sá elsti byrjaði að lesa...og þau blátt áfram ELSKA að leika þennan leik og biðja sérstaklega um að ég þyngi hann á hverju ári...síðast voru þau rúmar fimmtíu mínútur svo ég má gjöra svo vel að halda mér við efnið...he he....

En auðvitað er þetta bara gaman og ég nenni meðan þau nenna.....

Bergljót Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 21:24

2 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Ekki veit ég hvort ég myndi halda út...

Þórdís Guðmundsdóttir, 25.3.2008 kl. 00:55

3 identicon

Vá, þetta hefur verið þvílíkt gaman.  Ég reyndi að giska á staðina og hlakka til að fá að vita hvort ég hafi verið nálægt  

Við fórum bara í "heitur/kaldur" ratleik enda krílin ekki farin að lesa ennþá

Stórt knús á Trönuhjallatöffarana!

Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband